Kvenheilsa
Hormónakerfi kvenna sveiflast stöðugt og er ákaflega næmt fyrir síbreytilegu áreiti, streitu og öðrum umhverfisþáttum. Þar að auki breytast þarfir okkar eftir því á hvaða æviskeiði við erum, sem krefst þess að við hlustum á líkamann og gerum viðeigandi breytingar eftir því sem árin líða. Því er mikilvægt fyrir konur að huga að sinni persónulegri heilsu og vellíðan og setja eigin heilsu í forgang. Þættir eins og heilsusamlegt mataræði, regluleg hreyfing, góður svefn og slökun stuðla að jafnvægi bæði andlega og líkamlega til þess að takast betur á við áskoranir og verkefni í daglegu lífi.
Fæðuvenjur fyrir hormónaheilsu
Það sem þú borðar hefur áhrif á daglega orku, líðan og almennt heilsufar. Góð næring með áherslu á fæðutegundir úr jurtaríkinu og gott jafnvægi á próteinum, flóknum kolvetnum/trefjum og góðum fitugjöfum er það sem líkami okkar þarfnast fyrir góða heilsu. Að sama skapi er mikilvægt að takmarka magn sykurs og gjörunnina matvæla sem getur haft hormónaraskandi áhrif ef þessara fæðutegunda er neytt í of miklu magni. Sykurríkur og koffínbættur matur veldur hraðri hækkun og lækkun á blóðsykri og orku. Fjölbreyttir próteingjafar eins og fiskur, kjöt, baunir, mjólkurvörur og egg hjálpa til við að viðhalda heilbrigðum beinum, vöðvum og húð, á meðan trefjaríkt grænmeti gefur góða seddu, jafnar blóðsykur og veitir nauðsynleg næringarefni.
Jákvæð áhrif hreyfingar
Regluleg hreyfing getur stuðlað að hormónajafnvægi, dregið úr áhættu á langvinnum sjúkdómum og komið jafnvægi á blóðsykur. Það er gagnlegt fyrir konur að stunda styrktarþjálfun sem eykur vöðvamassa, eykur beinþéttni og dregur úr beinþynningu. Hreyfingin stuðlar einnig að bættri líðan, orku og viðheldur eðlilegri þyngd.
Streita og andleg líðan
Í dag virðist lífshlaupið vera hraðara og konur gjarnan með marga bolta á lofti í amstri dagsins. Langvarandi streita veldur því að nýrnahetturnar framleiða óeðlilega mikið magn af streituhormóninu kortisóli sem hækkar blóðþrýsting og blóðsykur, veikir ónæmiskerfið og gerir okkur viðkvæmari fyrir kulnun og jafnvel sjúkdómum. Streituminnkandi athafnir eins og jóga, slökun og hugleiðsla geta verið gagnleg leið til þess að halda streitu og álagi í skefjum. Góður svefn er gulli betri og getur skortur á svefni haft mikil áhrif á hormónajafnvægi. Því er mikilvægt að huga að góðum svefnvenjum. Með því að huga að ofangreindum lífsstílsþáttum er hægt að stuðla að bættu hormónajafnvægi hjá konum á heildrænan hátt fyrir hamingjusamt og heilsuríkt líf.